Grunnnámskeið

Grunnnámskeið

Grunnnámskeið er fyrir alla hunda, hvolpa jafnt sem fullorðna. Hundum er raðað saman í hóp eftir aldri og tegund. Hvolpar þurfa aðeins að vera búnir að fá eina bólusetningu til að byrja á námskeiðinu. Það er mikið forskot sem felst í því að mæta á námskeið með ungan hvolp. Fullorðnir hundar þurfa að hafa verið bólusettir á síðustu tveimur árum.

Á grunnnámskeiði læra hundaeigendur allt það helsta sem þarf til að ala upp stilltan og góðan hund. Farið er í grunnæfingar eins og að sitja, liggja, standa, bíða, taumgöngu, hælgöngu og innkall. Einnig er farið í skemmtiæfingar eins og kúnstir og leiki. Mikil áhersla er lögð á fyrirbyggjandi þjálfun, en það er allt sem við getum gert til að gera hundinn okkar tilbúinn fyrir lífið áður en þjálfunar- eða atferlisvandamál koma upp. Hér er til dæmis verið að tala um handfjötlun og allt sem þarf til að gera hund tilbúinn fyrir ferð til dýralæknis.

Á námskeiðum Hundasetursins er eingöngu notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir.

Námskeiðið tekur 8 vikur og eru verklegir tímar tvisvar í viku. Þrír fyrirlestrar eru á námskeiðinu, 2-3 klukkutímar hver. Fyrirlestrar eru einu sinni í viku, fyrstu þrjá laugardaga námskeiðsins.

Fyrirlestur 1 er um merkjamál og samskipti hunda. Talað er um vinamerki, stressmerki og merki sem gefa til kynna árásarhug. Farið er yfir samskipti milli hunda og samskipti hunda í leik.

Fyrirlestur 2 er um eðli og atferli. Farið er yfir hvað er eðlileg hegðun hunda og hvers við getum ætlast til af þeim. Talað eru um hvað hvetur hunda áfram í þjálfun og hvernig við náum mestum árangri með þá. Löggð er áhersla á umhverfisþjálfun, sjálfsstjórnaræfingar og slökun.

Fyrirlestur 3 er um umhirðu og fóðrun. Kennt er hvernig heilbrigður hundur á vera og merki þess að hundur sé ekki heilbrigður. Farið er yfir helstu heilsufarsvandamál og fyrirbyggjandi aðferðir til að koma í veg fyrir þau. Einnig er talað um fóður og hvernig velja eigi gott fóður fyrir hundinn. Farið er yfir kosti og galla geldingar/ófrjósemisaðgerðar. Farið yfir svefn hunda. Sömuleiðis er farið yfir hundasamþykktina, ábyrgð hundaeigenda og dýravernd.

Grunnnámskeið Hundasetursins veitir afslátt af hundaleyfisgjöldum hjá þeim bæjarfélögum sem bjóða upp á slíkt. Til þess þarftu að hafa 80% mætingu og ljúka bóklegu og verklegu prófi. Athugið að sum stéttafélög taka þátt í að greiða námskeiðið.

Verð: 45.000 krónur.

Námskeiðið, sem fer fram innandyra, er haldið í húsnæði Dýralæknamiðstöðvarinnar, Lækjargötu 34b, 220 Hafnarfirði.

Næstu námskeið

Skráning